Makaval en ekki val til mökunar

Ég vil að gamni benda á að þetta gildir bara um makaval, ekki um val til mökunar. Wink Mig minnir að þetta hafi verið tengt tíðahringnum, þannig að þegar konur voru í egglosi (og því frjóastar) fannst þeim karlmannlegir karlmenn meira aðlaðandi, en voru frekar fyrir kvenlegri karlmenn á öðrum hluta tíðahringsins. Mér fyndist svo áhugavert að vita hvaða áhrif, ef einhver, hormónagetnaðarvarnir eins og pillan hafa á þetta.
mbl.is Konur velja heldur menn með kvenleg útlitseinkenni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúrulyf: Er þetta í lagi?

Úr frétt af Vísi (biðst afsökunar á að ég c/p alla fréttina, en hún er bara svo stutt):

Matthías Halldórsson, starfandi landlæknir, segir að ekki sé hægt að gera athugasemdir við náttúrulækningar svo framarlega sem þær séu skaðlausar viðkomandi, ekki sé verið að plokka peninga af illa stöddu fólki eða ættingum þeirra og ekki sé verið að beina fólki frá hefðibundinni meðferð sem sé læknandi.

Matthías segir að margvísleg tilboð séu til um náttúrulækningar. Landlæknisembættið geti ekki haft eftirlit með öllu því sem í boði er og því verði fólk að taka upplýstar ákvarðanir fyrir sig sjálft.

Visir.is sagði í morgun frá Heiðu Björk Sturludóttur og syni hennar. Strákurinn greindist með Tourette heilkenni fyrir tæpum tveimur árum og leist Heiðu illa á þá hugmynd að setja son sinn á lyf. Hún taldi að strákurinn myndi fitna í kjölfarið og finna fyrir þunglyndiseinkennum. Heiða setti sig því í samband við homopata og ákvað að beita aðferðum náttúrulækninga við að fást við vandann.

Fyrir það fyrsta, ef náttúrulækningar eru a)skaðlausar, b)ekki peningaplokk, hvað eru þær þá? Ef þær eru skaðlausar eru þær annað hvort lyfleysur sem gera ekki neitt sérstakt og eru þar af leiðandi peningaplokk, eða þá að þær hafa lyfjaverkun og eru þá varla annað en lyf, eða hvað?

Og hvað með þetta að eiga ekki að koma í stað hefðbundinnar meðferðar? Nú er búið að sýna fram á að sum "náttúrulyf" geta komið í veg fyrir verkan lyfja vegna óhagstæðrar samverkunar (sjá t.d. Lyf og lyfleysur eftir Ými Vésteinsson í vefriti Res Extensa). Að auki er með endæmum skrýtið hjá Vísi að hann skuli nota ummæli landlæknis til að réttlæta þessa Tourette-meðferð, þar sem þar eru "náttúrulyf" greinilega að koma í staðinn fyrir hefðbundna meðferð sem gæti hjálpað krakkanum.

Og hvað eru svo eiginlega "náttúrulyf"? Hvað er svona náttúrulegt við þau og af hverju þarf það sem er "náttúrulegt" að vera eitthvað betra en eitthvað annað? Þetta fer óstjórnlega í taugarnar á mér, og sárt að foreldrar séu að neita börnunum sínum um viðurkennda meðferð sökum þess að þeir vita bara ekki betur :-( Landlæknir segir að fólk eigi að taka upplýstar ákvarðanir, en það er bara enginn til að upplýsa það eða þá að fólk tekur ekki mark á þeim sérfræðingum sem eiga að upplýsa það.


Why MATLAB?

Hér sit ég og eyði síðasta laugardagskvöldi mínu á Íslandi (um verslunarmannahelgina nota bene) við það að læra á MATLAB forritið/forritunarmálið. Nema hvað, auðvitað spyr ég MATLAB af hverju ég sé að þessu. Úr því varð þetta samtal við MATLAB-forritið:

>> why
Pete wanted it that way.
>> why
I told me to.
>> why
A young kid told me to.
>> why
Bill insisted on it.
>> why
For the love of Jack.
>> why
The computer did it.
>> why
Some not very bald very rich system manager wanted it.
>> why
You told the rich system manager.
>> why
Some not excessively rich young and smart hamster obeyed some rich and not very good and good and bald kid.

Þetta er páskaegg/easter egg sem forritarinn hefur örugglega einmitt eitthvert laugardagskvöldið skemmt sér við að bulla. Eins og segir á Wikipediu:

A virtual Easter egg is a hidden message or feature in an object such as a movie, book, CD, DVD, computer program, or video game. The term draws a parallel with the custom of the Easter egg hunt observed in many western nations. In computer programming, the underlying motivation is often to put an individual, almost artistic touch on an intellectual product which is by its nature standardised and functional.


Betra er seint en aldrei!

Nú veit ég að ég get alltaf hætt í doktorsnáminu mínu, stofnað eins og eina súpergrúppu og haldið áfram áratugum síðar. Þungu fargi er af mér létt.

Annars tek ég ofan fyrir fólki sem klárar, þótt seint sé. Faðir minn varði nú doktorsritgerðina sína í gróðurvistfræði fjörutíuogeitthvað ára, og mamma kláraði háskólann um fimmtugt. Hann Bing sem vinnur með Birni Leví (manninum mínum) í CCP var aftur á móti að kvarta yfir því að hann væri of gamall til að hefja doktorsnám, og hann er 29 ára! Ég segi bara fuss. Fólk á að gera það sem það langar til, hversu gamalt sem það er. 


mbl.is Gítarleikari Queen leggur fram doktorsverkefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningar

Sporðdreki: Fjárhagslegar aðstæður hafa áhrif á það sem þú gerir, ekki hvernig þér líður. Hversu þung eða létt sem buddan er, þá líður þér frábærlega.

Þetta var stjörnuspáin mín fyrir daginn í dag. Ég trúi ekki á stjörnuspár en staðhæfingin kemst þó glettilega nálægt viðhorfi mínu til peninga. Mér líður ekkert endilega alltaf frábærlega svo sem, en peningar hafa akkúrat áhrif á það sem ég geri, en umfram það er mér nokk sama um þá. Ég vil þó helst hafa nógu mikið af þeim til að þurfa einmitt ekki að pæla í þeim.

Það sem veitir mér lífshamingju eru vinir mínir, fjölskyldan, fróðleikur og þekking, og kannski góður matur og einstaka lakkrísbiti. 


Gott hjá þeim

Þetta eru nokkuð vel úthugsaðar pælingar hjá þeim, bæði líklega ódýrar og til aukinna þæginda. Ég er nokkuð ánægð með þetta. Verst hvað vagnarnir ganga samt sjaldan. Ég myndi persónulega frekar vilja fara lengri leiðir ef það þýddi að ég kæmist fyrr upp í vagninn; þá situr maður allavega ekki úti í vetrarkuldanum.
mbl.is Með blaðið og kaffibollann í strætó í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svindlaraheilkennið

Fyrst ég er nú á annað borð að tjá mig um heilkenni þá held ég að ég sé komin með svindlaraheilkennið (e. impostor syndrome). Svindlaraheilkennið hrjáir meirihluta framhaldsnema og einkennist af þeim hugmyndum að maður hafi einhvern veginn villt á sér heimildir og svindlað sér inn í viðkomandi skóla; í raun sé maður þess óverðugur að vera þar og sé mun ómerkilegri og heimskari en aðrir hafa gert sér grein fyrir.

Á Wikipediu segir: "This syndrome is thought to be particularly common among women who are successful in their given careers and is typically associated with academics." Ég lofa að reyna að hætta að hugsa svona, ætla ekki að fara að renna stoðum undir einhverja staðalmynd. Allavega veit ég þó að öllum í náminu mínu á eftir að líða nákvæmlega eins. 


Prófessorsheilkennið?

María bara orðin heimsfræg hehe. En jamm, ég hef stundum velt því fyrir mér hvort "Hómersheilkennið" sé í raun "prófessorsheilkenni". Nú er ég bara að dæma út frá sjálfri mér, afskaplega óvísindalegt, en ég væri til í að sjá einhverjar rannsóknir á því hvort akademíkerar og rannsóknarmenn eins og ég séu yfirleitt svona dæmalaust "hversdagsheimskir" ef svo má að orði komast. Eða er það bara ég sem er hrikalega utan við mig, óratvís, óstundvís og á allan hátt klaufsk og klunnaleg? Ætli ég sé komin með doktorsverkefni? Wink


mbl.is Homers-heilkennið eignað íslenskum sálfræðingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heili örvhentra ekki spegilmynd af heila rétthentra

Þessi fullyrðing er nú ekki alls kostar rétt: "Í rétthentu fólki stjórnar vinstri hlið heilans venjulega tali og tungumáli, og hægri hliðin stjórnar tilfinningum. Í örvhentu fólki er því oftast öfugt farið..."

Það er rétt að hjá miklum meirihluta rétthents fólks fer tungumálaúrvinnsla að miklu leyti fram í vinstra heilahveli, þó ekki algjörlega. Aftur á móti hef ég ekki heyrt að tilfinningar eigi sér eitthvað frekar sæti í öðru heilahvelinu frekar en hinu, held að það sé mýta (leiðréttið mig þá bara). Oft er talað um að vinstra heilahvelið sjái um sundurgreinandi vinnslu (t.d. greina orðaflaum í orð og bókstafi) en hið hægra um samþættandi vinnslu (t.d. rúmskynjun, skynja heild). Þetta er þó líklega nokkur einföldun.

Aðalmýtan er þó að heili örvhentra sé eins og spegilmynd af heila rétthentra; hið rétta er, ef ég man þetta, að um 70% örvhentra hafa heila sem "snýr eins" og heili rétthentra. Hin 30% eru með þetta svissað eða eru "jafnvígir" að einhverju leyti á bæði heilahvel. Þetta er aftur mikil einföldun hjá mér, og eingöngu gert eftir minni. Ég þyrfti að fletta þessu upp... En auðvitað verður þá að útskýra þessi 30% og ég útiloka ekkert að umtalað gen hafi eitthvert skýringargildi í þeim tilfellum. Fleiri þættir sem hafa verið nefndir eru einhvers konar áföll, t.d. minniháttar heilaskemmdir á fósturskeiði.


mbl.is „Örvhenta genið“ fundið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var að klára Harry Potter svar fyrir Vísindavefinn

Ég var rétt í þessu að klára svarið mitt um Harry Potter fyrir Vísindavefinn, í tilefni af útkomu síðustu bókarinnar á morgun: Hvað hefur Vísindavefurinn að segja um Harry Potter? Á morgun fjalla ég svo um sama efni á Bylgjunni rétt rúmlega hálfátta í Íslandi í bítið. Þetta verður síðasta útvarpsheimsóknin mín í bili, svo er ég bara flogin út til U.S.A. í námið mitt bráðlega. En ekki fyrr en ég er búin að klára seríuna um galdramanninn Harry Potter :-)
mbl.is Sofið fyrir utan Nexus í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband