US of A

Halló halló öll. Hér sit ég í nýju -- eða réttara sagt eldgömlu -- íbúðinni minni í Providence, Rhode Island. Klukkan er rúmlega eitt um nótt og ég ætti örugglega frekar að vera að læra eða sofa, en mér finnst ég skulda ykkur ferðasögu.

Ég lagði sem sagt af stað frá Fróni fyrir rúmri viku, þann 10. ágúst síðastliðinn, og lenti hér í hitabylgju. Ég fór strax og fékk afhenda lyklana að íbúðinni minni, en hún myndi nú ekki vera upp á marga fiska samkvæmt íslenskum staðli. Kanarnir virðast ekki hafa mikið fyrir að þrífa fyrir afhendingu, né heldur hafa þeir áhyggjur af sprungum í veggjum eða grænu vatni í baðkarinu. Mér er svo sem alveg nokk sama, hún er þó allavega stærri en ég hélt og á mjög góðum stað. Ég get labbað hvert sem er, svo til.

Fyrsta deginum eyddi ég líka meira og minna í að labba til og frá mollinu í steikjandi hita. Ég fékk mér síma sem kostaði morð fjár, en er fjandi flottur, og svo opnaði ég bankareikning sem hefur ekki neina vexti, puff. Að minnsta kosti er allt ódýrara hér. Bærin er líka fallegur og vinalegur, en mér skilst samt að maður þurfi að passa sig á kvöldin. Föstudagskvöldið sem ég kom ætlaði ég mér einmitt að heilsa upp á félaga mína í taugavísindaprógramminu, en ég var orðin úrvinda og datt að lokum dauð niður í nýja rúminu mínu. Það er það eina í íbúðinni sem er í alvörunni nýtt.

Daginn eftir fór ég út að borða með Brandon, Mark og Lach, sem einnig er fyrsta árs nemi eins og ég, á geðveikum sushi-stað sem heitir Hiruki. Brandon hefur reynst mér einstaklega vel og lánaði mér einmitt þessa tölvu. Ég hef lent í veseni með að panta mér fartölvu frá Dell og var að verða geðveik á internetleysi. Hvernig fór fólk að hér fyrir nokkrum áratugum síðan? Ég bara skil það ekki, mér finnst ég fötluð án ástkæra alnetsins. En allavega, eftir matinn fórum við öll til Brandons og ég fékk að spila Wii (sem ég sökka í, b.t.w.) í stærsta sjónvarpi sem ég hef nokkurn tíma séð. Skruppum smá á grad-pöbbinn og restinni af kvöldinu eyddum við Brandon (hinir voru of þreyttir) í stjörnuskoðun í næsta garði, það var sko "meteor shower", nokkuð flott, með sánd effectum á borð við engisprettuískur og leðurblökusmelli.

Á sunnudaginn 12. ágúst var förinni heitið til Ellu Bjartar í New York. Sökum mikillar umferðar tók ferðin mun lengri tíma en áætlað var, svo það helsta sem við gerðum var að fara út að borða á einhverjum latino-staðnum í Queens. Latinos eru einstaklega hávært fólk, og hafa greinilega mjög gaman að því að syngja afmælislagið, það var að minnsta kosti sungið sex sinnum með tilheyrandi sambatakti á meðan við vorum þarna inni. Held að það hafi bara verið af því að menn fengu ókeypis köku við tilefnið.

Daginn eftir fór ég á Roosevelt-hótelið þar sem ég hélt til næstu daga. Aðalástæðan fyrir New York förinni var nefnilega Fulbright-ráðstefna sem mér var boðið á ásamt mörgum öðrum styrkþegum af öllum þjóðernum. Ráðstefnan byrjaði að vísu ekki fyrr en daginn eftir svo við Ella hittumst aftur um kvöldið og sáum söngleik um guðrækna strákahljómsveit, hljómar skingilega en var ansi kætandi.

Ráðstefnan sjálf var nokkuð ágæt, ég lærði ýmislegt praktískt um hvernig er að vera erlendur framhaldsnemi í Bandaríkjunum og um bandaríska menningu. Já, hún er virkilega til, þótt sumir myndu frekar kalla hana ómenningu. Af einhverjum ástæðum hékk ég aðallega með fólki frá Suður-Ameríku. Suður-Ameríkubúar eru margir mjög "touchy-feely" svo mér dauðbrá stundum ef þeir vildu til dæmis vinalega strjúka á mér fótinn eða ef einhver sem ég þekkti varla óskaði eftir að faðma mig.

Verra þótti mér þó þegar Pakistani nokkur tók ástfóstri við mig -- ég hélt í alvöru að hann myndi biðja mig um að giftast sér á staðnum. Honum tókst meira að segja að finna afsökun til að troða sér inn í herbergið mitt og var bankandi á hurðina hjá mér síðasta morguninn. Annar Pakistani sagði að ég væri fullkomin af því að ég kynni að beina augunum frá augum hans. Ég fletti þessu upp síðar og samkvæmt pakistönskum kúltúr á konan að vera undirgefin karlmönnum og helst ekki hafa samskipti við þá. Liberal Pakistanar leyfa konum að tala við karlmenn en þá eiga þær ekki að horfast í augu við þá, það þykir of aggressívt, líklega. Mér finnst mjög áhugavert að þessir gaurar, sem voru eiginlega alveg út af kortinu, skuli örugglega vera með frjálslyndustu Pakistönum sem til eru. Þessi fyrri sætti sig til dæmis að lokum við að hann mætti ekki bjóða mér upp á drykki nema ég endurgyldi greiðann og við borguðum umganga til skiptis.

Ég hef annars lent nokkuð í að vera bögguð úti á götu, gaurar að stoppa mig og segja að ég sé sæt eða eitthvað, öskra eða flauta á mig úr bílum og svona þannig að mér dauðbregður. Ég er náttúrulega líka mikið ein á ferð og örugglega óvenjulega hvít og rauðhærð. Maður sér eiginlega ekki rauðhærða manneskju hér, írska ætterni Íslendinga er líklega að segja til sín.

Eftir ráðstefnuna skrapp ég aftur "heim" til Providence og kíkti á vídeókvöld með samnemendum mínum. Kvöldin eru sponsoreruð af deildinni svo við fáum alltaf ókeypis pizzur sem er kúl. Ég dreif mig svo daginn eftir á fartinn aftur og fór til Olgu og Garðars í Boston. Fékk mér bjór fjórða kvöldið í röð og fór út að dansa á bar sem var einum of "svartur", það er ekkert var spilað nema rapptónlist sem er nokkurn veginn eina tónlistarstefnan sem ég fíla ekki. Undantekningin er The Streets, en ég veit ekki hvort það telst með, enda bara einn breskur gaur að segja frá grasreykingum sínum og hversu illa honum gengur að pikka upp stelpur.

Ég kom svo aftur í gær eftir skinkudag hjá Olgu og Garðari (takk Olga fyrir að kenna mér nýtt orð, þá meira en viðheld ég íslenskunni). Eyddi deginum í dag í að flakka á milli Brown-skrifstofa og fór að lokum með Brandon í matvöruverslun, auðvitað risastóra a la USA. Ég hef aldrei verið jafn lengi að versla, enda þekkti ég ekki eina einustu vörutegund og mig vantaði allt. Ég held í alvörunni að ég hafi komið heim með 10 poka. Restinni af kvöldinu eyddi ég í að horfa á Sódómu Reykjavík til að komast í smá Íslandsfíling.

Á morgun er svo ferðinni heitið í IKEA með Brandon, aumingja hann þarf að hafa mig í eftirdragi hvert sem hann fer af því að hann á bíl en ekki ég. Ég hef sem sagt haft nóg að gera, svo mikið raunar að ég hef eiginlega ekki haft tíma til að fá heimþrá enn sem komið er. Þegar allt fellur í ljúfa löð (er löð virkilega orð? Ég hef aldrei sett það á prent áður) held ég þó að ég eigi eftir að sakna Íslands fögru hlíða, og auðvitað ykkar allra.

En þangað til, have a nice day!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Oooooh þetta er svo hriiikalega spennandi allt saman....!!!! Öfunda þig alveg í botn!! :)

Hey, ef ég færi í vinnustopp til annað hvort Boston eða New York, næði ég að heimsækja þig?? Og hvort væri styttra? :p

Lilja Sif (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 09:47

2 identicon

Ohh, gaman að heyra í þér!

 Þetta hljómar allt svaka gaman (nema karlmannsböggið. Eru ekki konur í Ameríku??) Hlakka til að heyra meira frá þér.

 *stórt knús*

Lilja kjallararotta (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 10:34

3 Smámynd: Heiða María Sigurðardóttir

Hæ Liljur ;-) Lilja Sif, Boston er mun nærri Providence, og já þú næðir því alveg, tekur um klukkutíma með lest. Endilega gerðu það við tækifæri :-) Og jú, ég hef séð nokkrar konur í Ameríku, og meira að segja margar sætar, en fólkið hérna er af öllum stærðum og gerðum.

Heiða María Sigurðardóttir, 21.8.2007 kl. 17:23

4 identicon

Gaman að heyra að allt gangi vel þarna. Endilega vera dugleg að blogga svo maður geti fylgst með:)

Helga (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 13:25

5 identicon

Hæ skvís. Gaman að heyra sögur úr Ameríkunni og frábært hvað þú ert búin að kynnast af fólki. Kannast reyndar við vandamálið með karlmenn úr öðrum menningarheimi - leiðinlegt að segja það en það er alveg lykilatriði að gefa ekki færi á sér. Maður er svo saklaus Íslendingur að maður áttar sig ekki á þessu. Fjölmenningarsamfélög skemmtileg en krefjandi;) Frábært líka hvað það er greinilega mikil bjúrókrasía í kringum svona flutninga.....það er nú alltaf svo skemmtilegt og gefandi. Mundu svo bara að allt er vænt sem vel er grænt....vonum að það eigi við baðvatn líka.

Knús og kram 

Margrét (IP-tala skráð) 24.8.2007 kl. 09:44

6 identicon

Enn ein Liljan hérna ;) ferlega gaman að lesa þetta hjá þér og ég vona svo sannarlega að þú haldir áfram að skrifa um lífið þarna úti. Það er svo gaman að heyra svona s-ögur af allt öðrum heimi og fá upplifunina í gegnum manneskju sem maður þekkir vel ;) Gangi þér bara rosalega vel og þú færð fullt af knæusi og kossum frá mér ;)

Lilja sys (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 22:27

7 Smámynd: Heiða María Sigurðardóttir

Halló öll :) Ég [hjarta] ykkur.

Heiða María Sigurðardóttir, 26.8.2007 kl. 03:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband