Heili örvhentra ekki spegilmynd af heila rétthentra

Þessi fullyrðing er nú ekki alls kostar rétt: "Í rétthentu fólki stjórnar vinstri hlið heilans venjulega tali og tungumáli, og hægri hliðin stjórnar tilfinningum. Í örvhentu fólki er því oftast öfugt farið..."

Það er rétt að hjá miklum meirihluta rétthents fólks fer tungumálaúrvinnsla að miklu leyti fram í vinstra heilahveli, þó ekki algjörlega. Aftur á móti hef ég ekki heyrt að tilfinningar eigi sér eitthvað frekar sæti í öðru heilahvelinu frekar en hinu, held að það sé mýta (leiðréttið mig þá bara). Oft er talað um að vinstra heilahvelið sjái um sundurgreinandi vinnslu (t.d. greina orðaflaum í orð og bókstafi) en hið hægra um samþættandi vinnslu (t.d. rúmskynjun, skynja heild). Þetta er þó líklega nokkur einföldun.

Aðalmýtan er þó að heili örvhentra sé eins og spegilmynd af heila rétthentra; hið rétta er, ef ég man þetta, að um 70% örvhentra hafa heila sem "snýr eins" og heili rétthentra. Hin 30% eru með þetta svissað eða eru "jafnvígir" að einhverju leyti á bæði heilahvel. Þetta er aftur mikil einföldun hjá mér, og eingöngu gert eftir minni. Ég þyrfti að fletta þessu upp... En auðvitað verður þá að útskýra þessi 30% og ég útiloka ekkert að umtalað gen hafi eitthvert skýringargildi í þeim tilfellum. Fleiri þættir sem hafa verið nefndir eru einhvers konar áföll, t.d. minniháttar heilaskemmdir á fósturskeiði.


mbl.is „Örvhenta genið“ fundið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnar Ásgeirsson

Hæ. Ég ákvað að birta ritgerð mína um örhvendu frá 2006, þroskasálfræði, vegna þessarar fréttar. Hana má lesa hér.

Árni Gunnar Ásgeirsson, 31.7.2007 kl. 21:28

2 Smámynd: Heiða María Sigurðardóttir

Takk fyrir ábendinguna, ég skoða þetta :)

Heiða María Sigurðardóttir, 31.7.2007 kl. 21:59

3 Smámynd: Eggert J. Eiríksson

Ekki ætla ég að leggjast út í einhver "fræði" en...

Hvað skiptir það máli þótt fólk sé örvhent hvernig það varð þannig?
Ég bara get ekki séð hvað svona umræða eins og um "minniháttar heilaskemmdir" er til þess fallin að hjálpa þeim sem kannski þurfa að þola einelti út af þessu þó "litla" máli.
Á kannski að fara binda hendur barna aftur? Ég tiltölulega rétt slapp við það og þó bara um fertugt !!

Hérna er samt eitt dæmi fyrir þig..
Við erum tveir frændurnir og nafnar (systrasynir) sem erum báðir örvhentir, hvað segir það þér um erfðir eða heilaskemmdir???

Kv EJE

Eggert J. Eiríksson, 1.8.2007 kl. 01:04

4 Smámynd: Heiða María Sigurðardóttir

Datt í hug að þetta með "heilaskemmdir" gæti verið viðkvæmt mál. Ég hélt þó að ég þyrfti ekki að taka fram að ég hef ekkert á móti örvhentu fólki. Mér fannst það bara svo sjálfsagt að ég nefndi það ekki einu sinni, ekki frekar en ég hélt að ég þyrfti að taka fram að ég hefði ekkert á móti fólki með ofnæmi eða einhverja aðra smávægilega kvilla.

Svo ég svari nú Eggerti, þá er í fyrsta lagi ekki alveg staðfest, held ég, að örvhenti geti stafað af smávægilegum heilaskemmdum, en það er vissulega kenning sem ekki ætti að hafna á þeim forsendum einum að hún samræmist ekki pólitískri rétthugsun. Í öðru lagi, ef slíkt gerist taka önnur svæði oft við þannig að skaðinn þarf ekkert endilega að sjást í hugsun/hegðun. Aftur á móti er samt nokkuð vel staðfest að ýmsir kvillar eru algengari hjá örvhentu fólki, sjá t.d. bloggið hans Árna hér fyrir ofan.

Það skiptir máli að skilja hvernig örvhent fólk varð þannig vegna þess að það segir okkur um hvernig heilinn virkar, hvernig hann stjórnar útlimum og hvernig hann er breytilegur.

Heiða María Sigurðardóttir, 1.8.2007 kl. 01:22

5 Smámynd: Heiða María Sigurðardóttir

Ég gleymdi þessu: "Við erum tveir frændurnir og nafnar (systrasynir) sem erum báðir örvhentir, hvað segir það þér um erfðir eða heilaskemmdir???"

Þetta segir mér í raun afskaplega fátt um erfðir og heilaskemmdir. Til að skoða erfðamynstur einkenna eins og örvhenti þarf að skoða stóra hópa, því erfitt er að alhæfa út frá fáum einstaklingum. Það væri t.d. hægt að skoða hvort þeir sem væru örvhentir væru líklegri en aðrir til að eiga örvhenta ættingja. Einnig mætti t.d. bera saman eineggja og tvíeggja tvíbura og athuga hvort "handarfar" sé oftar eins hjá eineggja en tvíeggja tvíburum, og mundi það þá líklega benda til erfðaþáttar.

Varðandi heilaskemmdir þá er erfitt að skoða það þar sem þær væru litlar. Athugaðu að hér er orðið heilaskemmd ekki notað í almennri merkingu eins og eitthvað alvarlegt sé að fólkinu, einungis að smávegis svæði hafi orðið fyrir einhvers konar hnjaski, virki svolítið óvenjulega eða annað slíkt. Möguleiki væri að skoða þetta með því að framkalla heilaskemmdir í dýrum sem sýna "handarfar", en ég veit þó ekki til þess að slíkt sé mjög algengt í dýraríkinu. Einnig mætti líklega skoða heila látinna og kanna mismun á heila eftir handarfari. Ég hef þó ekki úthugsað neitt rannsóknarsnið á þessu sviði, en það eru reyndar örugglega til fullt af rannsóknum á þessu og eitthvað af þessu hefur eflaust verið raunprófað. 

Heiða María Sigurðardóttir, 1.8.2007 kl. 01:32

6 Smámynd: Eggert J. Eiríksson

Vá ! Mjög svo greinagóð svör hjá þér.

Markmið mitt var svosem ekki að fara út í þaula með fræðina heldur aðalega að benda á þá hættu sem getur skapast með óvarlegum athugasemdum, enda þótt ég sé um fertugt og stór og stæðilegur þá er fólk ennþá að láta útúr sér tóma tjöru, ljótar sneiðar og fordóma beint í fésið á mér.
Ég man líka eftir því að fullorðna fólkið gerði góðlátlegt grín að mér þegar maður tók áhöld upp með "rangri" hendi, sem er sjálfsagt ekki það besta sem hægt er að gera börnum ég hef reyndar oftar en ekki getað gert grín af sjálfum mér, en það er kannski bara ég.

Ég er greinilega heilaskemmdur ég amk. ræð ekkert við fræðilegu hliðarnar af þessum "kvilla" mínum .

Ef þú sást ekki link á blogginu mínu þá er hann hérna aftur, www.lefthandersday.com ... (þetta var amk 13. ágúst ár hvert)

p.s. ég er örvhentur á svo til allt nema hníf og gaffal

Takk fyrir skýringarnar..
Kv EJE

Eggert J. Eiríksson, 1.8.2007 kl. 01:57

7 Smámynd: Heiða María Sigurðardóttir

Já, takk fyrir að lesa þetta hjá mér :) Bara svona að nefna það út í bláinn þá er mamma mín örvhent á allt nema skæri (minnir mig) og prjóna, líklega af því að henni var kennt að nota áhöldin þannig.

Heiða María Sigurðardóttir, 1.8.2007 kl. 02:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband