10.10.2007 | 05:18
Leiðindi
Hér er miserfitt að vera. Líðan min virðist ganga í bylgjum; aðra stundina er allt í fína og mér líður vel. Hina stundina geri ég mér ískyggilega vel grein fyrir því að ég er með haus-, maga- og bakverk, ég skil ekki allt í skólanum, ég finn ekki verkefni til að vinna, ég móðga prófessorana mína, ég er alein í ókunnu landi, án fjölskyldu og vina, með fólki sem aðhyllist önnur grundvallarlífsgildi en ég og mér líkar ekki endilega allt of vel við.
Ég kann ekki að haga mér eftir óskrifuðum bandarískum reglum og þótt ég kynni það er ég ekki einu sinni viss um að ég vilji gera það. Þetta er eins og déjá vu því ég hef enn einu sinni fengið á mig stimpilinn "skrýtna stelpan". Því fara menn að búast við að ég sé alltaf í ofurgóðu og kreisí skapi, þegar raunin er að allajafna er ég einstaklega róleg manneskja sem langar bara að vinna vinnuna sína í friði.
Brandon vinur minn er góður gaur en hann er að gera mig geðveika með því að geta aldrei verið alvarlegur og agnúast út í að ég sé allt of alvarleg þessa dagana. Vegna tungumálaörðugleika, þótt þeir séu ekki miklir, get ég ekki tjáð þennan pirring öðruvísi en að snappa af og til, sem gerir hlutina örugglega enn verri. Ég sakna vina minna og ég sakna fjölskyldunnar minnar, og mest af öllu sakna ég Björns, þótt ekki sé nema bara að sakna þess að vera í sama herbergi og hann, læra og vera alvarleg og leiðinleg. PLÍS leyfið mér að vera leiðinleg í friði. Takk.
VIÐBÓT: Samkvæmt vefnum persóna.is sýni ég mörg einkenni þunglyndis, þar á meðal: a) hlutir fara meira í taugarnar á mér en venjulega b) á í erfiðleikum með að hafa hugann við það sem ég þarf að gera c) er döpur d) tala minna en venjulega e) finn fyrir einmanaleika f) fékk grátkast g) finnst fólki líka illa við mig h) kem mér ekki í gang.
Ég VERÐ að passa mig að detta ekki niður í eitthvert svað og passa geðheilsuna. Ekki samt hafa of miklar áhyggjur, gott fólk, ég vissi að ég væri að fara út í aðstæður þar sem þetta gæti gerst.
Athugasemdir
Hæ Heiða
Ekki gleyma því að mörg atriði á leiðindaatriðalistanum þínum eru jafngild á Íslandi. Ég er til dæmis með haus-, maga- og bakverk í Fossvoginum núna. Ég hef aldrei skilið allt í skólanum og hugmyndaleysið er sannarlega ekki bundið við Providence. Þegar ég var í bókmenntafræði í Danmörku var ég skrítni strákurinn (innan um 35 bókmenntafræðinema!!!), þar sem ég bannaði fólki að borga mér pening fyrir að gefa því sígarettu og gekk í fötum sem samræmdust stuttu tímabili síðpönksins frá 1979-1982. Þessi atriði geta verið jafnleiðinleg hvar sem er í heiminum. En þetta eru sennilega léttvægari aukaleiðindi sem bætast ofan á söknuð og óöryggi á nýjum stað.
Ég mæli með því að þú reynir að njóta þess að vera ein. Mér fannst alltaf best að fara með mp3 spilara á kaffihús, kaupa mér eitthvað gott og sitja svo kannski í 3-4 tíma og læra. Þá var ég aleinn (og nokkuð pródúktívur) en samt innan um fólk. Annars er þér alltaf velkomið að kíkja á msn og vera leiðinleg í smástund. Varðandi björn þá mæli ég með því að hann forriti af sér heilmynd (hologram) hið fyrsta og dansi jafnvel strípidansa á því myndformi. Það væri bylting í longdistance-digital-sex bransanum.
Gangi þér vel og láttu okkur í RE endilega vita þegar andinn kemur yfir þig og þú getur sent okkur póstkort um það sem þú tekur þér fyrir hendur þegar þú ert búin að velja þér verkefni og einhver mynd komin á.
mbk.
ÁGÁ
Árni Gunnar Ásgeirsson, 10.10.2007 kl. 09:54
Æ, dúllan mín, það er leitt að heyra að þér líður ekki eins vel og þú bjóst við.
Ég efast ekkert um að þú hefur marga aðila sem þú getur leitað til með pirring og leiðindi, mig þar með talda, þannig að þú skalt ekki hika við að kíkja á msn og snappa aðeins.
Hvað Björn varðar, þá held ég að hugmynd Árna um að hann geri bara heilmynd, sé of tæknilega flókin til að hægt sé að framkvæma hana. Í staðinn held ég að Björn ætti annaðhvort að búa til pappaspjald af sér í fullri líkamsstærð eða plakat sem þú gætir haft í herberginu þínu.
Hvað skólann varðar, þá veit ég að þú eigir eftir að finna þína leið. Það getur tekið smá tíma, en það tekst ábyggilega. Ég er búin að nota þá afsökun oft og mörgum sinnum að ég sé íslensk, og viti þar með ekki hverjar siðvenjurnar eru til þess að móðga ekki fólk, og ég held að sú afsökun sé mjög góð. Ég held að ef að þú ert búin að móðga prófessorana þína að einhverju leyti, þá geturðu bara falið þig á bak við þjóðerni þitt. ;)
Annars líst mér mjög vel á hugmyndina hans Árna með að þú reynir að njóta þess að vera ein. Ég held að ef þú ert að verða drulluleið á því að láta alltaf eins og hirðfífl þá ættirðu að kúpla þig út úr aðstæðunum og setjast á kaffihús þar sem þú getur slappað af, lært og verið innan um fólk án þess að vera með fólki. Ég held líka að ef þú hefur ekki verið að haga þér eins og þú ert vön, sé kominn tími til þess að þú hættir að látast og verðir þú sjálf. Mér var gefið gott ráð um daginn og held að það eigi jafn vel við nú og þá: "Vertu þú sjálf og þá er ekki annað hægt en að elska þig."
*stórt knús* Vonandi líður þér betur.
Lilja Rotta (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 11:57
Ég ætti kannski að fara í markaðssetningu á heilmyndum af mér, virðist vera mikill áhugi fyrir slíku
Björn Leví Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 12:06
Hmm... þykir mér vegið að Birni, sem ég veit ekki betur en að sé afburðarnemdani í tölvunarfræði, þegar sagt er að hugmyndir séu of tæknilega flóknar.
Og já Björn, þegar það verður komið í mitt ,,price range" þá mun ég örugglega kaupa eina fyrir hvert herbergi íbúðarinnar. Mér þætti þó vænna um að mín dansi ekki, heldur segi brandara eða lesi upp úr Íslandsklukkunni.
Árni Gunnar Ásgeirsson, 10.10.2007 kl. 13:59
Hæ öll, takk fyrir peppið. Ég er betri í dag en í gær, en eins og ég segi gengur þetta í bylgjum. Já, það væri gott að spjalla af og til. Og já, ég held að heilmynd sé málið, Björn geturðu ekki tekið doktorinn í því bara? Mér líst samt sérstaklega vel á kaffihúsahugmyndina, takk fyrir hana.
Heiða María Sigurðardóttir, 10.10.2007 kl. 20:38
Ég efast ekki um að fjarlægðin frá eiginmanninum geri þér mest erfitt en þið verðið bara að vera dugleg í samskiptunum, þó svo að þau verði ekki face-to-face.
Knús frá mér :)
Spurning hvort við familían kíkjum ekki á þig í mars, þegar við munum eyða tveimur vikum ekki mjög langt frá Rhode Island. Verðum í sambandi um það síðar.
Ásdís Ómarsdóttir (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 12:37
Já, væri gaman að fá ykkur í heimsókn :) Veitir víst ekki af.
Heiða María Sigurðardóttir, 11.10.2007 kl. 15:17
"Maður bara skilur ekki svona fólk" -MK um pómóa (a.t.h. að nota sömu áherslur í framburði og MK).
Ég verð að segja að ég bara skil þetta fólk ekki. Mér hefur aldrei fundist þú skrýtin. Að vísu áttu það til að sýna einkunna-frávillings-hegðún eða öllu heldur hægri-hala-normaldreifingar-einkunna-tilhneigingu, en það getur tæplega flokkast sem alvarlegt ástand hvað þá slæmt ástand.
Fólk verður líka að læra að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. T.d. þegar við girðum jakkann ofan í buxurnar á djamminu, tölum við álfinn eða spilum á nefið á okkur þá erum við fyndin, ekki skrýtin :) Það er þeirra vandamál ef þeir hafa ekki húmor.
Svo að lokum er þér auðvitað alltaf velkomið að tuða í mér, á Skype eða MSN, þegar þig langar. Enda er fúl og pirruð frekar normið hjá mér en tímbundið ástand ;)
Vaka (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 17:33
Knúsiknúsiknúsiknús elsku besta systir. Það er oft talað um að fyrstu tvö árin séu erfið, sérstaklega það fyrsta. Svo verði þetta fínt. Man alveg eftir þessu þegar við fluttum til Noregs, sem er þó nær okkar menningu og einnig þá var ég alls ekki alein. Hlakka til að sjá þig um jólin... eða kemuru ekki örugglega í heimsókn þá?
Luv,
Lilja sys.
Elis, Lilja og co., 14.10.2007 kl. 22:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.