Hættuleg fréttamennska?

Þessi frétt finnst mér ansi varhugaverð.

Í fyrsta lagi misskilur greinarhöfundur greinilega rannsóknina, en hann segir orðrétt: "Raunar eru líkurnar á því að sjúklingar lifi sjúkdóminn af ríflega 100%". Það er ekki til neitt sem getur kallast "ríflega 100%" líkur. Þegar líkindi á að eitthvað gerist er 100% gerist það í öllum tilfellum. Ríflega 100% líkur eru ekki til. Og jafnvel þótt maður geri ráð fyrir að greinarhöfundur meini að líkur á að lifa sjúkdóminn af séu 100% þá er það bara ekki rétt, það ER hægt að deyja úr húðkrabbameini.

Í öðru lagi er hér greinilega aðeins byggt á einni rannsókn, en það þarf margar rannsóknir til að staðfesta það sem haldið er fram.

Í þriðja lagi er ekki getið frumheimilda, svo ekki er nokkur leið fyrir mann til að kanna t.d. hvort aðferðafræði viðkomandi rannsóknar sé ábótavant eða hversu margir voru í úrtakinu. Ekki er einu sinni víst að rannsóknin sé birt í viðurkenndu ritrýndu fræðiriti, maður veit ekkert um það.

Ég ráðlegg því lesendum að hoppa ekki beinustu leið upp í ljósabekki til að fá húðkrabbamein og auka þannig lífslíkur sínar. Ég ráðlegg svo mbl.is að vanda til verka og skoða frumheimildir frekar en Jyllandsposten. 

VIÐBÓT: Nú er mbl.is búið að breyta fréttinni, það stendur allavega ekkert lengur um "ríflega 100%" líkur, sem er til bóta.


mbl.is Húðkrabbamein til bóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

  Ég hef ekki séð fréttina í Jyllandsposten og veit því ekki hvað í henni stendur nákvæmlega.  Hinsvegar hefur þessu oft verið haldið fram í heilsublöðum:  Að þeir sem hafa fengið húðkrabbamein nái hærri meðalaldri en aðrir.  Vísað hefur verið í einhverjar kannanir.  Ég held þó - án þess að vita það - að þær kannanir séu ekki það yfirgripsmiklar að hægt sé að tala um niðurstöður þeirra sem vísindalegar.  Ég held að þetta sé meira eitthvað sem einstaka húðlæknar hafa tekið saman.

  Hinsvegar hafa heilsublöðin oft verið áratugum á undan hinni viðurkenndu vestrænu læknisfræði.  Dæmi um slíkt er að heilsublöð hófu fyrir þremur áratugum áróður gegn gífurlegri ofnotkun fúkkalyfja.  Öll rök heilsublaðanna fyrir skaðsemi fúkkalyfja hafa síðan verið staðfest.  Fyrir 10 - 15 árum tóku einstaka læknar upp þennan málstað.  Hérlendis eru það Vilhjálmur Ari Arason,  Hallgrímur Magnússon og fleiri.

  Samt vex ofnotkun fúkkalyfja stöðugt.  Ekki síst hérlendis.

  Landlæknisembættið hellti sér yfir íslensku heilsublöðin þegar þau kynntu til sögunnar gersveppasýkingu (candid albicans).  Annað eins rugl hafði landlæknir og hans fólk aldrei heyrt.  Í dag þekkja allir læknar gersveppasýkingu. 

  Þetta eru bara tvö dæmi um það að heilsublöðin eru áratugum á undan læknisfræðinni.  Eða réttara sagt þá tekur það læknisfræðina áratugi að staðfesta kenningar heilsublaðanna.

  Landlæknisembætti,  geislavarnir ríkisins og önnur álíka fyrirbæri hafa sterka tilhneygingu til að sýna ýkt svart-hvít viðbrögð.  Bæði hérlendis og í nágrannalöndunum.

  Fyrir 7 - 8 árum skrifuðu tveir franskir vísindamenn grein í vísindarit.  Þar greindu þeir frá því að þeir hafi látið mýs synda í þeim efnum sem sólvörn í sólkremum er samsett úr.  Eftir að mýsnar höfðu svamlað í þessu í nokkra daga (fremur en vikur) tóku að myndast húkrabbamein á þeim.

  Greinin barst inn í læknablöð.  Það greip um sig fár.  Hvert embættið á fætur öðru varaði fólk eindregið við að nota sólvarnarkrem.  Í Danmörku voru sólkrem einfaldlega bönnuð.  Hérlendis hættu mörg apótek að selja sólkrem.

  Heilsublöðin börðust gegn þessu fári.  Bentu á að sólvarnarkrem þvert á móti verndi fólk gegn sólbruna og húðkrabba. 

  Frönsku vísindamennirnir voru undrandi á túlkun lækna á greininni.  Þeir bentu á að rannsókn sín hafi alls ekki sýnt að sólvarnarkrem væru skaðleg fólki.  Magnið sem fólk ber á sig er bara örlítið brotabrot af því sem mýsnar svömluðu í.  Þessu sé ekki hægt að jafna saman.  Þar fyrir utan svömluðu mýsnar í þessum efnum dögum saman. 

  Vísindamennirnir tóku undir með heilsublöðunum og hvöttu fólk eindregið til að nota sólvarnarkrem.  Í kjölfarið var banninu aflétt í Danmörku og íslensk apótek settu sólkrem aftur upp í sínar hillur.

  Það eru tvær kenningar í gangi um það hversvegna meðalaldur þeirra sem fá húðkrabbamein er hærri en annarra.

  Önnur er sú að þegar húðkrabbamein myndast þá sé varnarkerfi líkamans virkjað.  Það berst gegn krabbameininu.  Þegar krabbameinið er fjarlægt býr líkaminn áfram að sterku varnarkerfi.

  Hin kenningin byggir á því að þeir sem stunda sólböð fá frekar húðkrabbamein en aðrir.  Í sólböðum verður til mikið magn hollefna.  Meðal annars D vítamín.  Kalkupptaka fer í gang og styrkir bein og fleira.  Boðefnaframleiðsla í heilanum vinnur gegn þunglyndi.  O.s.frv.  

Jens Guð, 31.7.2007 kl. 21:40

2 Smámynd: Heiða María Sigurðardóttir

Sæll Jens, og takk fyrir athugasemdina. Ég skal alls ekki útiloka að stundum geti heilsublöð verið á undan læknavísindum að einhverju leyti. Aftur á móti skilur þar á milli að heilsublöð styðjast oft við atvikasögur ("þetta virkaði fyrir manneskju X") á meðan læknavísindi nota annars konar og strangari aðferðafræði, sem tekur þó vissulega oft lengri tíma að beita.

Þess vegna vil ég að það sé varlega farið þegar haldið er fram einhverju sem stangast algjörlega á við það sem vísindarannsóknir hafa bent til fram að þeim tíma; vissulega getur atvikasaga verið merki um eitthvað raunverulegt eða ný rannsókn verið byltingarkennd -- það þarf bara svo oft að útiloka aðra möguleika. Atvikasögur og óvenjulegar niðurstöður ætti því ekki að fara með sem háheilagan sannleik heldur eru tilefni til frekari rannsókna.

Heiða María Sigurðardóttir, 31.7.2007 kl. 23:50

3 Smámynd: Heiða María Sigurðardóttir

P.S. Þetta eru áhugaverðar kenningar sem vert er að skoða frekar.

Heiða María Sigurðardóttir, 31.7.2007 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband