Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Svindlaraheilkennið

Fyrst ég er nú á annað borð að tjá mig um heilkenni þá held ég að ég sé komin með svindlaraheilkennið (e. impostor syndrome). Svindlaraheilkennið hrjáir meirihluta framhaldsnema og einkennist af þeim hugmyndum að maður hafi einhvern veginn villt á sér heimildir og svindlað sér inn í viðkomandi skóla; í raun sé maður þess óverðugur að vera þar og sé mun ómerkilegri og heimskari en aðrir hafa gert sér grein fyrir.

Á Wikipediu segir: "This syndrome is thought to be particularly common among women who are successful in their given careers and is typically associated with academics." Ég lofa að reyna að hætta að hugsa svona, ætla ekki að fara að renna stoðum undir einhverja staðalmynd. Allavega veit ég þó að öllum í náminu mínu á eftir að líða nákvæmlega eins. 


Prófessorsheilkennið?

María bara orðin heimsfræg hehe. En jamm, ég hef stundum velt því fyrir mér hvort "Hómersheilkennið" sé í raun "prófessorsheilkenni". Nú er ég bara að dæma út frá sjálfri mér, afskaplega óvísindalegt, en ég væri til í að sjá einhverjar rannsóknir á því hvort akademíkerar og rannsóknarmenn eins og ég séu yfirleitt svona dæmalaust "hversdagsheimskir" ef svo má að orði komast. Eða er það bara ég sem er hrikalega utan við mig, óratvís, óstundvís og á allan hátt klaufsk og klunnaleg? Ætli ég sé komin með doktorsverkefni? Wink


mbl.is Homers-heilkennið eignað íslenskum sálfræðingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heili örvhentra ekki spegilmynd af heila rétthentra

Þessi fullyrðing er nú ekki alls kostar rétt: "Í rétthentu fólki stjórnar vinstri hlið heilans venjulega tali og tungumáli, og hægri hliðin stjórnar tilfinningum. Í örvhentu fólki er því oftast öfugt farið..."

Það er rétt að hjá miklum meirihluta rétthents fólks fer tungumálaúrvinnsla að miklu leyti fram í vinstra heilahveli, þó ekki algjörlega. Aftur á móti hef ég ekki heyrt að tilfinningar eigi sér eitthvað frekar sæti í öðru heilahvelinu frekar en hinu, held að það sé mýta (leiðréttið mig þá bara). Oft er talað um að vinstra heilahvelið sjái um sundurgreinandi vinnslu (t.d. greina orðaflaum í orð og bókstafi) en hið hægra um samþættandi vinnslu (t.d. rúmskynjun, skynja heild). Þetta er þó líklega nokkur einföldun.

Aðalmýtan er þó að heili örvhentra sé eins og spegilmynd af heila rétthentra; hið rétta er, ef ég man þetta, að um 70% örvhentra hafa heila sem "snýr eins" og heili rétthentra. Hin 30% eru með þetta svissað eða eru "jafnvígir" að einhverju leyti á bæði heilahvel. Þetta er aftur mikil einföldun hjá mér, og eingöngu gert eftir minni. Ég þyrfti að fletta þessu upp... En auðvitað verður þá að útskýra þessi 30% og ég útiloka ekkert að umtalað gen hafi eitthvert skýringargildi í þeim tilfellum. Fleiri þættir sem hafa verið nefndir eru einhvers konar áföll, t.d. minniháttar heilaskemmdir á fósturskeiði.


mbl.is „Örvhenta genið“ fundið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var að klára Harry Potter svar fyrir Vísindavefinn

Ég var rétt í þessu að klára svarið mitt um Harry Potter fyrir Vísindavefinn, í tilefni af útkomu síðustu bókarinnar á morgun: Hvað hefur Vísindavefurinn að segja um Harry Potter? Á morgun fjalla ég svo um sama efni á Bylgjunni rétt rúmlega hálfátta í Íslandi í bítið. Þetta verður síðasta útvarpsheimsóknin mín í bili, svo er ég bara flogin út til U.S.A. í námið mitt bráðlega. En ekki fyrr en ég er búin að klára seríuna um galdramanninn Harry Potter :-)
mbl.is Sofið fyrir utan Nexus í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættuleg fréttamennska?

Þessi frétt finnst mér ansi varhugaverð.

Í fyrsta lagi misskilur greinarhöfundur greinilega rannsóknina, en hann segir orðrétt: "Raunar eru líkurnar á því að sjúklingar lifi sjúkdóminn af ríflega 100%". Það er ekki til neitt sem getur kallast "ríflega 100%" líkur. Þegar líkindi á að eitthvað gerist er 100% gerist það í öllum tilfellum. Ríflega 100% líkur eru ekki til. Og jafnvel þótt maður geri ráð fyrir að greinarhöfundur meini að líkur á að lifa sjúkdóminn af séu 100% þá er það bara ekki rétt, það ER hægt að deyja úr húðkrabbameini.

Í öðru lagi er hér greinilega aðeins byggt á einni rannsókn, en það þarf margar rannsóknir til að staðfesta það sem haldið er fram.

Í þriðja lagi er ekki getið frumheimilda, svo ekki er nokkur leið fyrir mann til að kanna t.d. hvort aðferðafræði viðkomandi rannsóknar sé ábótavant eða hversu margir voru í úrtakinu. Ekki er einu sinni víst að rannsóknin sé birt í viðurkenndu ritrýndu fræðiriti, maður veit ekkert um það.

Ég ráðlegg því lesendum að hoppa ekki beinustu leið upp í ljósabekki til að fá húðkrabbamein og auka þannig lífslíkur sínar. Ég ráðlegg svo mbl.is að vanda til verka og skoða frumheimildir frekar en Jyllandsposten. 

VIÐBÓT: Nú er mbl.is búið að breyta fréttinni, það stendur allavega ekkert lengur um "ríflega 100%" líkur, sem er til bóta.


mbl.is Húðkrabbamein til bóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband